Kertaloginn yljar

Mikið er nú gott að geta tendrað á kerti í skammdegisrökkrinu. Horft í logann, sett lavender olíu í ilmkrús því það er svo róandi og svæfandi, lesið spaugilegar sögur eða hlustað á góða tónlist.

Læt ég tvær skopsögur úr bókinni Nýjar sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum eftir Sigurgeir Jónsson fylgja með. Grínið hressir andann. Ekki veitir af í komandi kuldatíð.

 

„Guðrún giftist aldrei, var barnlaus og fór litlum sögum af samneyti hennar við hitt kynið. Í Vestmannaeyjum var önnur kona sem aldrei var talin hafa verið við karlmann kennd og fékk af því viðurnefni og kölluð Sigga mey. Einhverju sinni á sunnudegi var Sigga mey að koma úr kirkju og stikaði niður Skólaveginn. Guðrún horfði á eftir henni og sagði síðan stundarhátt:

„Ekki gæti ég hiugsað mér að deyja sem hrein mey.““

Hér er hin:

„Sigga mey var einhverju sinni spurð um tilefni þessa viðurnefnis hennar og stóð ekki á svarinu:

„Já, öllu má nú nafn gefa.““

 

Lifi húmorinn

 

 


"Aðgát skal höfð..."

Loksins var gaman af Spaugstofunni. Það var hressandi.

Þeir höfðu líka nægt efni til að skopast að.

 

Það fór hins vegar fyrir brjóstið á mér hvernig þeir sýndu Ólaf F. Magnússon.

Mér fannst það hreinlega ljótur leikur.

Hnífasettin öll voru í lagi en þeir fóru yfir strikið með því að sýna Ólaf eins og út úr kú.

Merkilegt hvað orð Einars Ben. eiga alltaf við:

"Aðgát skal höfð í nærveru sálar".  Wink


Hundrað daga stjórnin

Það hefur verið sagt að pólitíkin sé algjör tík!

Það sannaðist seinnipartinn þegar hundrað daga stjórnin féll.

Skyldi Dagur B. seinna verða kallaður - Dagur hundagakonungur.

Hunda og hundrað, stutt á milli í íslenskunni, skemmtilegt, efni í vísu.

Hundrað daga stjórnin fór í hundana því miður.

Það hlýtur að vera erfitt að standa í þessum darraðardansi pólitíkurinnar,

fegin að ég er ekki þar.

 

Eitt gladdi mikið mitt litla hjarta í nýjum málefnasamningi F og D listans.

Væntanleg borgarstjórn ætlar að bjóða börnum, unglingum, öryrkjum og öldruðum ókeypis í strætó.

Ég tel það vera mikið heillaspor fyrir borgarbúa.

Megi þessir hópar njóta heill. Vonandi höfum við efni á þessu.

Syngjum í sundi

Það verður fróðlegt að sjá hvaða niðurstaða verður um húsin nr. 4 og 6 á Laugavegi. Furðulegast er að það skuli ekki vera komin niðurstaða fyrir löngu síðan. Kerfið er þungt í vöfum og getur stundum verið flókið. Það er ekki eins og niðurrifi þeirra hafi aldrei verið mótmælt. Vonandi fáum við botn í málið sem fyrst. Mín ósk er sú að götumyndin fái að varðveitast. Reyndar fannst mér fyrirhugaðar byggingar þarna ágætar af teikningum í blöðum að dæma. Mér fannst þær falla vel að götumyndinni þannig að ég græt ekki hvort sem gömlu húsin fá að standa eður ei.

Mikilvægast finnst mér að borgarstjórn hugsi vel um borgarana. Áherslan á að vera á góðri og uppbyggilegri þjónustu fyrir þegnana.

Ég sakna eins atriðis sem var í R-lista samstarfinu. Þá var boðið upp á söngkennslu í Breiðholtslaug undir stjórn Yngveldar Ýrar Jónsdóttur vikulega í einhvern tíma. Mér fannst þetta mjög skemmtileg ráðstöfun á skatttekjum mínum. Vonandi verður þetta aftur tekið upp borgarbúum til ánægju og yndisauka.

 


Getur friður jóla fylgt okkur inn í nýtt ár?

Eins og það er gaman að koma jólaskrautinu fyrir og dást að gamla dótinu sínu í desember þá er jafn gaman að taka það niður á þrettándanum. Jólin eru í hálfan mánuð og þeim lýkur á þrettándanum. Þá er eðlilegt að taka niður jólaskrautið. Mér finnst nauðsynlegt að ramma jólatímann inn í ákveðið tímabil. Það er nóg að byrja jólaundirbúninginn á fyrstu helgi í aðventu og passlegt að pakka niður 7. janúar.

Á þessum tíma fleytum við Íslendingar okkur yfir dimmasta tímann. Höfum nóg að gera og fyllum umhverfið af ljósi til að bæta okkur upp ljósskortinn í desember. Það kemur alltaf jafn þægilega við mig eftir þrettándann að sól hefur hækkað heilmikið á lofti síðan ég tók eftir henni síðast.

Það dýrmætasta hins vegar við jólatímann er boðskapurinn um Guð sem kom til okkar í Jesúbarninu. Að Guð gerðist maður til að mæta mér á þeim stað sem ég er, er hreint frábært. Það er mér dýrmætast að undirbúa hjarta mitt fyrir hver jól til að taka á móti Jesú. Friður hans er engu lýkur og er sú lífsreynsla sem er mér einna mikilvægust í lífinu. Í hvert sem friður Guðs fyllir hjarta mitt og hugsun, hvílist ég djúpt og öðlast ómælt æðruleysi. Það er verulega eftirsóknarvert. Leiðin að friði Guðs er að nálgast hann í einlægni og biðja hann um að mæta sér með fyrirgefningu og endurnýjun.  


Mugiboogie fyrir mín eyru

Undanfarið hef ég verið að hlusta á Mugiboogie og verð að segja að Mugison tekst aldeilis vel til á nýja disknum sínum. Það er í honum einhver sprengikraftur og ferskleiki sem er mjög skemmtilegt á að hlusta. Meira svona.  Reyndar minnir hann stundum á Beck, það er ekki verra. Áfram Mugison.

Nýtt ár og fyrirheitin

Í byrjun ársins setti ég mér markmið. Geri það sjaldan um áramót og er þegar byrjuð að brjóta gefin fyrirheit.

Ah- h- h- ætli þetta sé alltaf svona erfitt? Kannski þarf ég að hafa markmiðin til styttri tíma, hafa þau lægri og hafa þau skrifleg en mér skilst að það hafi þónokkuð að segja ef maður ætlar að ná þeim.

Skriflegt markmið mitt er að léttast um 4 kíló á næsta hálfa ári. Þessu ætla ég mér að ná í gegn.

Annars er ég mikið að hugsa um til hvers ég vil blogga. Þetta er önnur tilraun mín til að skrifa svona fyrir alheim. Spurningin er: Ætla ég að hafa einhverja stefnu í skrifunum, ætla ég að skrifa það sem liggur á mér hverju sinni eða vil ég koma einhverju ákveðnu á framfæri með blogginu? Þessu hef ég ekki svarað enn, læt samt móðann mása þar til ég veit hvert ég vil stefna.

Eins og sannur Íslendingur fór ég á útsölur í dag og má næstum segja að slegist hafi verið um sumar vörurnar, svo mikill var atgangurinn í Kringlunni. Út kom ég með nýjar flíkur og bros á vör. Það þarf ekki mikið til að gleðja landann.


Þú átt ekkert nema það sem þú þakkar fyrir

Gleðilegt ár kæru landsmenn!

 Það er mikið lán að vera Íslendingur á þessum tíma. Við fljótum um í velmegun og kunnum ekki alltaf að meta gæðin sem við höfum. Þökkum fyrir allt það góða sem er í lífi okkar, með því lærist okkur að meta gæðin sem við höfum. Sagt hefur verið: Þú átt ekkert nema það sem þú þakkar fyrir. Það er speki sem gott er að hugleiða.

Ein tegund gæða sem við höfum er allt hreina vatnið. Ég var nú ekkert sérstaklega þakklát síðastliðið haust þegar aldrei var skrúfað fyrir kranann í efra. En vatnsauðlyndir okkar eru fjársjóður í veröldinni og satt að segja vil ég hafa þá auðlynd í höndum valdhafa því ég treysti ekki blindum auðsöflunum fyrir þeim. Er ekki viss um að ég fengi sanngjarnan aðgang að auðlyndum landsins.

Annars ætla ég ekki að hafa áhyggjur af þessu á nýju ári, vildi bara minna mig á hve við búum vel hér á norðurhjara. Okkur hefur farnast vel undanfarin misseri og ég horfi til þess á nýju ár að velmegunin haldi áfram. Tel samt að við mættum taka orð forsetans í nýársræðunni til athugunar er hann sagði að við þyrftum að hægja á lífsgæða kapphlaupinu. Það er svo margt fleira lífsgæði en hlutir í efnishyggjunni. Við þurfum að rækta okkar andlega auð og við þurfum að rækta samfélagið við okkar nánustu. Það er dýrmætast af öllu.

Ha, ...já skaupið!  Það reis nú ekki hátt en fín ádeila inn á milli. Vantaði hins vegar húmorinn.


Fólki fjölgar í Þjóðkirkjunni

Töluleg fjölgun en hlutfallsleg fækkun 

Sunnudaginn 25. febrúar s.l. er vitnað í bloggsíðu Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur í grein í Morgunblaðinu þar sem hún segir að Þjóðkirkjan sé minnkandi stofnun. Þetta og fleira sem hún nefndi er ekki á rökum reist og því sting ég niður penna.Frá árinu 1998 hefur einstaklingum í Þjóðkirkjunni nefnilega fjölgað ár frá ári. Þrátt fyrir það hefur hlutfall meðlima í Þjóðkirkjunni miðað við landsmenn lækkað síðustu ár úr 89,37% í 82,09%. Það kannski skýrir ástæðu þess afhverju alltaf er verið að tala um að það fækki í Þjóðkirkjunni.  Miðað við tölur Hagstofunnar þá hefur hlutfallsleg fjölgun orðið mest í einum söfnuði hjá kaþólikkum, 1,09% frá 1998 en frá þeim tíma hefur flestum fjölgað sem eru skráðir í önnur ótilgreind trúfélög eða um tæp 4%. Síðustu ár hefur samsetning íslensku þjóðarinnar verið að breytast. Innflytjendum hefur fjölgað, verkamenn vegna stóriðju hafa streymt inn í landið og það skýrir að miklum hluta fækkun hlutfallslega í Þjóðkirkjunni. Í Valþjófsstaðaprestakalli sem er á Kárahnjúkasvæðinu voru bara 27,27% í Þjóðkirkjunni í fyrra og eru það eingöngu breytingar vegna erlendra verkamanna. Þetta verður að hafa í huga þegar hlutfallstölur eru dregnar fram. Hitt þarf líka að vera upp á borðinu að meðlimum í Þjóðkirkjunni fjölgar. Í greininni var komið inn á fjármál og nefnt að Þjóðkirkjan fengi fjóra milljarða á meðan hin trúfélögin fengju aðeins sóknargjöldin. Helmingurinn af  milljörðunum fjórum er sóknargjöld og stór hluti er afgjald jarðeigna kirkjunnar vegna samninga.  

Afstaða kirkju til samkynhneigðra 

Bryndís talaði um afstöðu biskups og annarra innan kirkjunnar að hún væri leynt og ljóst gegn giftingum samkynhneigðra. Afstaða presta til helgiathafnar fyrir staðfestri samvist samkynhneigðra er mismunandi en flestir vilja taka á móti þeim og vera með blessunarathöfn á staðfestri samvist. Biskup útbjó blessunarathöfn fyrir staðfesta samvist fyrir aldamótin sem hefur verið notað síðan og á prestastefnu í fyrra var lagt fram nýtt blessunarform fyrir staðfesta samvist sem verður notað til kynningar og reynslu á næstunni. Kenningarnefnd um blessun á staðfestri samvist samkynhneigðra hefur gefið út ályktun þar sem m.a. kemur fram að Þjóðkirkjan viðurkennir að kynhneigð fólks sé mismunandi og ítrekar að samkynhneigðir eru hluti af kirkju Krists og lifa undir fagnaðarerindinu. Hún styður þá einstaklinga af sama kyni sem vilja búa saman í ást og trúmennsku og staðfesta samvist sína og skuldbindingar. Fundur fyrir safnaðarfólk verður haldinn af fimm sóknum í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra í mars þar sem opin umræða verður um ályktun kenningarnefndarinnar. Þar er vettvangur fyrir almenning til að bregðast við ályktuninni. Er það hluti af lýðræðislegu vinnuferli kirkjunnar til að taka afstöðu til málefna samkynhneigðra.   


Byrjuð að blogga

Þetta er fyrsta bloggið mitt. Þennan vettvang ætla ég að nota til að viðra hugmyndir mínar og það sem ég er að gera. Það verður væntanlega gaman að taka þátt í þessu nútímalega samfélagi bloggverja, sína sig og sjá aðra í vefumhverfinu. Smá limra í tilefni þessa:

Bára er hér algjör byrjandi

að blogga, hún prófar spyrjandi.

Er skoðun fram skýtur

í rökum ei þrýtur

vildi helst tjá sig syngjandi.

 

Til hamingju með daginn allar konur. Því miður er enn þarft að hafa alþjóðlegan baráttudag kvenna. Viðra þá skoðun mína að brýnast sé að jafna laun karla og kvenna það kemur bæði konum og körlum til góða. Rökin eru að fái konan hærri laun minnkar þörf karlsins til að vinna yfirvinnu. Þannig verður frítíminn meiri og næðið fyrir fjölskylduna vex. Ég fagna því að launaleynd verði bönnuð. Það setur staðreyndirnar upp á borðið og skapar betri grunn til að berjast fyrir betri launum kvenna.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bára Friðriksdóttir

Höfundur

Bára Friðriksdóttir
Bára Friðriksdóttir
Bára er sóknarprestur í Hafnarfirði og Vogum. Hún er eiginkona og tveggja barna móðir.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0088
  • 2010elin bjort gudm gefa ondum800x500

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband