26.10.2008 | 23:21
Vonin styrkir veikan þrótt...
Æ, já. Það er víst skollin á kreppa. Hvern hefði órað fyrir því að svona gæti farið fyrir íslenskri þjóð á 21. öldinni? En þetta er staðan og almenningur situr eftir með sárt ennið. Vissulega tókum við öll þátt í stífu lífsgæðakapphlaupi og því miður hafa margir lifað um efni fram í langan tíma. Það kann aldrei góðri lukku að stýra.
Fyrst varð þjóðin fyrir miklu sjokki, doða og afneitun. Þetta eru fyrstu áfallseinkennin. Núna er reiðin að brjótast fram sem er einn liður sorgarferlisins sem þjóðin er í.
Á næstu vikum og mánuðum eigum við eftir að sjá afleiðingarnar koma skýrt fram. Þá vex reiðin enn meira fram. Við þurfum að vinna úr þessu sem þjóð og sem einstaklingar. Við þurfum einnig að vinna úr þessu með rannsókn á því sem gerðist svo að við þurfum aldrei að lenda í þeim sporum aftur sem við erum í í dag.
Reiði mín og sárindin sem eru að brjótast fram þessa dagana snúa aðallega að stjórnvöldum sem áttu að setja skýrari leikreglur svo að ekki væri hægt að valsa með frelsið án samhengis við ábyrgð. Ég hef oft sagt að frelsi án ábyrgðar sé helsi. Það birtist skýrt núna. Hvernig gat það gerst að s´tjórnvöld hafi ekki gripið fastar i taumana fyrr á þessu ári þegar þeir voru komnir með upplýsingar um í hvað stefndi. Hinn hluti reiðinnar snýr að útrásargosunum sem geystust óábyrgt áfram. Ég finn reyndar líka til með fjölskyldum þeirra sem nú upplifa andúð og jafnvel aðkast.
Við getum haft áhrif í stjórnmálunum og krafist kosninga í vor. Við höfum ekkert vald til að kúska útrásarpeyjana til. Það eina sem við getum gert gagnvart þeim er að biðla til þeirra að þeir komi með peninga sína frá útlöndum og hjálpi til við uppbyggingu íslensks samfélags. Satt að segja finnst mér við eiga það inni hjá þeim. Þeir myndu sýna manndóm og ábyrgð með því.
Sjálfsmynd þjóðarinnar er hrunin jafnt í útlöndum sem í okkar huga. Hrun veruleikans er líka eitt af því sem gerist við mikið áfall. Eftir það þarf að glíma við allar þungu og erfiðu tilfinningarnar sem brjótast fram og smám saman að byggja upp aðra sjálfsmynd, eða rétta sagt nýja mynd af heiminum sem við viljum lifa í.
Á næstu mánuðum og árum fer sú vinna fram. Ég vona að við hvert og eitt og sem þjóð drögum lærdóm af þessum ósköpum og vinnum að því að svona geti aldrei gerst aftur.
Í þessari vinnu er nauðsynlegt að halda í vonina og horfa til bjartari tíma sem birtast síðar. Þessi húsgangur brýnir:
Vonin styrkir veikan þrótt,
vonin doða hrindir.
Vonin hverja vökunótt
vonarljósið kyndir.
Um bloggið
Bára Friðriksdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.