Ég krefst nálgunarbanns

Einhvernveginn hef ég ekki haft neina þörf til að skrifa fyrir almannasjónir síðustu mánuði. Nenni ekki að opinbera hugsanir mínar fyrir alþjóð endalaust. En í vikunni birtist frétt sem ekki er hægt að þegja undir.

Maður sem hafði beitt fyrrum sambýliskonu sína ofbeldi til margra ára, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt, fékk ekki framlengt nálgunarbann þrátt fyrir að lögreglan færi fram á það. Þriggja manna dómur skiptist reyndar í tvennt, einn vildi nálgunarbann og færði rök fyrir því að skerðing mannsins væri lítil. Mátti einungis vera í 50 metra fjarlægð frá konunni en gat gert annað sem hann lysti innan ramma laganna. Hinum dómurunum tveim fannst ekki lengur vera forsenda fyrir  nálgunarbanni.

Ég verð að segja að hér er skilningur dómaranna á aðstæðum fórnarlambsins sorglega lítill. Þeir sjá ekki forsendu lengur til að íþyngja manninum, en gera sér ekki grein fyrir hve hræðilega þeir eru að íþyngja konunni og ekki bara henni heldur öllum fórnarlömbum ofbeldismanna því nálgunarbannið hefur verið eina hálmstrá þeirra til að slíta sig frá ofbeldismanninum.

Slegin, er lýsing á því hvaða áhrif þetta hefur á mig. Búum við virkilega í samfélagi þar sem dómskerfið hefur engan skilning á aðstæðum þess sem er beittur lúmsku óréttlæti í ofbeldi. Það hefur verið ljóst í dómum kynferðisbrota og sifjaspells. Sem betur fer hafa þeir dómar verið að þyngjast hægt og bítandi síðasta áratuginn en þegar horft er til alvarleikans, hvaða áhrif þessir glæpir hafa á fórnarlömbin þá er algjört misræmi í þyngd þeirra dóma miðað við t.d. fíkniefnadóma.

Mig langar að draga upp mynd af áhrifum ofbeldisins á fórnarlambið jafnvel þótt ofbeldismaðurinn sé farinn úr nánasta umhverfi. Hótunin um ofbeldi hefur mjög lúmsk og erfið sálræn áhrif. Vitneskjan um að nærri þér sé aðili sem hefur í hyggju að meiða þig eða pína gerir það að verkum að þú býrð við ótta sem stjórnar atferli þínu. Það heftir þig svo að þú ferð ekki á ákveðna staði, jafnvel þó þú þurfir að koma þangað. Þú hagar lífi þínu þannig að þú getir forðast átök og áður en þú veist af ert þú orðin/n fangi óttans við hegningu ofbeldismannsins. Stundum slagar hegning hótunarinnar hátt upp í sársaukann sem felst í ofbeldinu sjálfu. Því ofbeldismaðurinn er flinkur við að hóta og gera þér ljóst að þú komist aldrei frá vökulu auga hans og að hann muni sko lúskra á þér ef þú gerir ekki akkúrat eins og hann segir. Hann lætur þig vita að hann geti alveg drepið þig. Þá dugir ekki flótti til útlanda, hann ætlar að elta þig þangað. Og þó það myndi ekki gerast í raunveruleikanum, (gæti reyndar allt eins gerst) þá heldur óttatak hans þannig um þig að þú veist að hann getur alltaf leitað þig uppi og misboðið þér algjörlega til anda, sálar og líkama.

Konurnar sem koma í Kvennaathvarfið búa inn í þessu óttataki sem ofbeldismaðurinn hefur á þeim. Þær eru helteknar af ótta og allar ákvarðanir þeirra miðast út frá: „Hvernig skyldi hann bregðast við þessu?“ Þær trúa því ekki að þær séu hultar fyrir ofbeldismanninum í athvarfinu. Ein er sú von sem hægt hefur verið að vekja með þeim. ÞÚ GETUR FENGIÐ NÁLGUNARBANN !! Með því má hann ekki koma inn fyrir ákveðinn radíus í þínu lífi. Þar getur þú fundið öryggi.

Þolandinn er ekki laus við ofbeldismanninn úr huga eigin fangelsis, líklega ekki frá sms, símhringingum eða tölvuskeytum. EN HANN MÁ EKKI KOMA INN FYRIR ÞENNAN HRING. ÞAR ER FRELSI ÞOLANDANS, ÞAR ER VON HANS.

Með dómnum var öll von tekin frá þessari konu. Hver er frelsissvipting hennar? Margfalt meiri en frelsissvipting gerandans. Eftir margra ára barsmíðar og kynferðislegt ofbeldi þar sem hún var líka þvinguð til að vera með öðrum mönnum á hún bara að gera ráð fyrir því að hún fái frið fyrir honum si svona. Hún hefur engin úrræði sjálf, engin nema að fá nálgunarbann þannig að hún geti upplifað grundvallar öryggiskennd. Dómararnir skylja það ekki, það veldur mér verulegum áhyggjum.

Konan er svipt voninni sem hún hafði um stuðning samfélagsins til að hún gæti búið við öryggiskennd. Hún hefur skilning lögreglunnar í þessu máli en  dómararnir tveir hafa svipt hana frelsinu því hvað er einstaklingur án öryggiskenndar um sína grunn velferð?

Eins og Sigþrúður forstöðukona Kvennaathvarfsins sagði að þá er það fólk sem vinnur að stuðningi þessara kvenna hissa og finna til vonleysis. Það er þörf að hlusta eftir rödd starfsfólksins, þolandans og lögreglunnar.

Hér dugir aðeins eitt: Vér mótmælum allir. Þetta má aldrei gerast aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Tek undir hvert einasta orð hjá þér og er jafnslegin yfir þessum dómurum og andvaraleysi þeirra og þú.

Vona að þú hafir það gott Bára mín...fer ekki að koma tími á kaffisopa? 

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.8.2008 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bára Friðriksdóttir

Höfundur

Bára Friðriksdóttir
Bára Friðriksdóttir
Bára er sóknarprestur í Hafnarfirði og Vogum. Hún er eiginkona og tveggja barna móðir.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0088
  • 2010elin bjort gudm gefa ondum800x500

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband