8.3.2007 | 21:05
Fólki fjölgar í Þjóðkirkjunni
Töluleg fjölgun en hlutfallsleg fækkun
Sunnudaginn 25. febrúar s.l. er vitnað í bloggsíðu Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur í grein í Morgunblaðinu þar sem hún segir að Þjóðkirkjan sé minnkandi stofnun. Þetta og fleira sem hún nefndi er ekki á rökum reist og því sting ég niður penna.Frá árinu 1998 hefur einstaklingum í Þjóðkirkjunni nefnilega fjölgað ár frá ári. Þrátt fyrir það hefur hlutfall meðlima í Þjóðkirkjunni miðað við landsmenn lækkað síðustu ár úr 89,37% í 82,09%. Það kannski skýrir ástæðu þess afhverju alltaf er verið að tala um að það fækki í Þjóðkirkjunni. Miðað við tölur Hagstofunnar þá hefur hlutfallsleg fjölgun orðið mest í einum söfnuði hjá kaþólikkum, 1,09% frá 1998 en frá þeim tíma hefur flestum fjölgað sem eru skráðir í önnur ótilgreind trúfélög eða um tæp 4%. Síðustu ár hefur samsetning íslensku þjóðarinnar verið að breytast. Innflytjendum hefur fjölgað, verkamenn vegna stóriðju hafa streymt inn í landið og það skýrir að miklum hluta fækkun hlutfallslega í Þjóðkirkjunni. Í Valþjófsstaðaprestakalli sem er á Kárahnjúkasvæðinu voru bara 27,27% í Þjóðkirkjunni í fyrra og eru það eingöngu breytingar vegna erlendra verkamanna. Þetta verður að hafa í huga þegar hlutfallstölur eru dregnar fram. Hitt þarf líka að vera upp á borðinu að meðlimum í Þjóðkirkjunni fjölgar. Í greininni var komið inn á fjármál og nefnt að Þjóðkirkjan fengi fjóra milljarða á meðan hin trúfélögin fengju aðeins sóknargjöldin. Helmingurinn af milljörðunum fjórum er sóknargjöld og stór hluti er afgjald jarðeigna kirkjunnar vegna samninga.
Afstaða kirkju til samkynhneigðra
Bryndís talaði um afstöðu biskups og annarra innan kirkjunnar að hún væri leynt og ljóst gegn giftingum samkynhneigðra. Afstaða presta til helgiathafnar fyrir staðfestri samvist samkynhneigðra er mismunandi en flestir vilja taka á móti þeim og vera með blessunarathöfn á staðfestri samvist. Biskup útbjó blessunarathöfn fyrir staðfesta samvist fyrir aldamótin sem hefur verið notað síðan og á prestastefnu í fyrra var lagt fram nýtt blessunarform fyrir staðfesta samvist sem verður notað til kynningar og reynslu á næstunni. Kenningarnefnd um blessun á staðfestri samvist samkynhneigðra hefur gefið út ályktun þar sem m.a. kemur fram að Þjóðkirkjan viðurkennir að kynhneigð fólks sé mismunandi og ítrekar að samkynhneigðir eru hluti af kirkju Krists og lifa undir fagnaðarerindinu. Hún styður þá einstaklinga af sama kyni sem vilja búa saman í ást og trúmennsku og staðfesta samvist sína og skuldbindingar. Fundur fyrir safnaðarfólk verður haldinn af fimm sóknum í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra í mars þar sem opin umræða verður um ályktun kenningarnefndarinnar. Þar er vettvangur fyrir almenning til að bregðast við ályktuninni. Er það hluti af lýðræðislegu vinnuferli kirkjunnar til að taka afstöðu til málefna samkynhneigðra.
Um bloggið
Bára Friðriksdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.