Kirkjan skilar mannauði

Guðmundur Guðmundsson skrifaði grein í Fréttablaðið 26. maí 2009 sem ég vil svara. Þar hefur hann uppi mörg orð um það að Þjóðkirkjan sé undanþegin fasteignaskatti og lóðagjöldum (er reyndar lóðarréttindi). Hann vísar í lög  um tekjustofna sveitarfélaga nr.  4/1995  en finnst ekki ástæða til þess að nefna að allar kirkjur og bænhús annarra trúfélaga viðurkennd af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fái sama afslátt. Í 5. gr. laganna er líka tiltekið að safnhús sem ekki eru rekin í ágóðaskyni eru undanþegin skattinum. Ekki er minnst á að sendiráð erlendra ríkja hér á landi og hús alþjóðastofnana fá niðurfellingu. Fasteignagjöld samanstanda af fasteignaskatti , lóðaleigu, sorphirðugjaldi, holræsagjaldi og vatnsgjaldi. Ofantaldir aðilar fá niðurfellingu á fyrstu tveim liðunum, af hinum greiðir Þjóðkirkjan sín gjöld. 

 Afsláttur fasteignagjalda 

Auk afslátta af gjöldum til ofangreindra aðila fella sveitastjórnir oft niður fasteignaskatt hjá fleirum. Sjá lög nr.  4/1995 sjá 5. gr. „Sveitarstjórn er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Neðar í greininni er heimild til að veita afslátt eða niðurfellingu til tekjulágra elli og örorkuþega. Víða gefa sveitafélög elli- og örorkuþegar afslátt á fasteignagjaldi. Vonandi halda þeir ívilnun þó að þrengi að því  þessir hópar þurfa sannarlega á fjárstuðningi að halda. Einnig hafa íþróttafélög víða fengið afslátt. Vonandi fær hann að halda sér í kreppunni því þau eins og kirkjan vinna að bættu samfélagi, um það þurfum við að standa vörð. Þjóðkirkjan leggur fram þjónustu við mikið félagsstarf frá vöggu til grafar. Forvarnargildi æskulýðsstarfsins er t.d. mikið.  Það er krökkum að kostnaðarlausu fyrir utan ferðalög. Þar eru m.a. krakkar sem ekki hafa náð að blómstra í öðru félagsstarfi en læra þar að byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd.

 Þjóðkirkjan og aðrir

Guðmundur  talaði um 16 kirkjur í Reykjavík með fasteignamat upp á 6 milljarða. Þær eru reyndar 15 og er fasteignamat þeirra auk safnaðarheimila  5.848.320.000 krónur.  Hann gerir ráð fyrir 100 milljónum í fasteignagjöld. Af B-flokki fasteigna í Reykjavík eru fasteignagjöldin  401.345.542 kr. þar af greiðir kirkjan 324.147.718 kr. Hann sér bara ofsjónum yfir niðurfellingu gjalda hjá Þjóðkirkjunni.

Til að átta sig á þessu í samhengi við annað má nefna að fasteignamat íþróttahússins Fjölnis í Grafarvogi er 1.374.650.000. Það er eitt stakt hús byggt alfarið á kostnað Reykjavíkurborgar. Það hefur rétt á að sækja um fasteignaskattsafslátt og fær góða styrki eins og önnur íþróttafélög frá borginni. Finnst okkur réttlátt að antisportistar agnúist út af því og heimti að notendurnir standi undir öllum kostnaðinum? Íþróttamannvirki, kirkjur, safn- og menningarhús,  allt er þetta samfélagsauður til uppbyggingar og viðhalds góðu mannlífi. Við eigum að styðja við  það.

 Hallgrímskirkja

Guðmundur hafði allt á hornum sér varðandi Hallgrímskirkju og núverandi viðhaldskostnað sem hann taldi allan úr vasa skattborgara. Þegar ákveðið var að byggja Hallgrímskirkju var það alfarið ákvörðun Alþingis að byggja svona stóra kirkju  enda ekki á færi safnaðarins að standa undir henni.  Núverandi viðhald skiptis jafnt á milli ríkis, borgar og Hallgrímskirkju það ég best veit. Hallgrímskirkja er fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi, þar fara um 300.000 ferðamenná ári. Á veraldarvefnum flokkast hún sem ein af 10 einstæðustu kirkjum í heiminum þó að Guðmundur sjái ekkert fallegt við hana (http://churchvaluation.com//10%20Most%20Unique%20Churches.pdf).

 Viðhald kirkna

Kostnaður við byggingu og viðhald kirkna leggst að langmestu leyti  á viðkomandi sókn. Það eru félagsgjöld þjóðkirkjufólksins sem borga. Auk þess getur sóknin sótt um styrk í jöfnunarsjóð kirkna en sá styrkur er hlutfallslega lítill, enda eru margar kirkjur í stórum vanda með að sinna nauðsynlegu viðhaldi. Það er ekki spennandi að skera niður gróskumikla starfsemi svo að steinninn haldi sér.  Þess vegna skiptir félagsgjald skráðra þjóðkirkjumeðlima miklu máli. Ríkið innheimtir gjaldið, 855 krónur á mánuði af 16 ára og eldri og skilar kirkjunni.  Af þessari innkomu þarf hver kirkja að standa straum af öllum sínum kostnaði.

 Guð ber hag okkar fyrir brjósti

Félagsauður er mikill í kirkjunni auk menningarlegs- og trúarlegs auðs. Dýrmætasti auður kirkjunnar felst í von trúarinnar. Við eigum aðgang að höfundi sköpunarverksins í gegnum Jesú Krist. Þar er elskandi hugur sem skilur okkur og heyrir. Þar er máttugur Guð sem vill leiða þjóðina í gegnum aðsteðjandi erfiðleika. Það veitir mér styrkur og hjálp að biðja fyrir þjóð og ráðamönnum í þessum þrengingum. Trúin í kristinni kirkju veitir mikla huggun, uppörvun, aðhald og von. Þeim hefur fjölgað s. l. vetur sem hafa leitað til kirkjunnar. Guð gefi að siðferði Krists fái að byggja upp sterkari þjóð.

 

17. júní 2009

Bára Friðriksdóttir, sóknarprestur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kirkjur og trúfélög eiga ekki að fá neitt spes afgreiðslu á einu né neinu.
Fyrir utan að guð og allt í kringum hann er ekkert nema hjátrú sem ísland hefur ekki efni á að halda uppi, milljarðana sem fara í þessa hjátrú á að setja strax til alvöru mála, ekkert hókus pókus takk

DoctorE (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 20:52

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Þakka þér pistilinn Bára.

Hólmfríður Pétursdóttir, 2.7.2009 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bára Friðriksdóttir

Höfundur

Bára Friðriksdóttir
Bára Friðriksdóttir
Bára er sóknarprestur í Hafnarfirði og Vogum. Hún er eiginkona og tveggja barna móðir.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_0088
  • 2010elin bjort gudm gefa ondum800x500

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband