20.1.2009 | 23:34
Við þurfum nýtt lýðræði
Eitthvað er ég löt að blogga. Fæ útrás annars staðar. Ástandið í landinu er þó farið að setjast þungt í mig. Stjórnvöld sitja sem fastast. Enginn hefur tekið ábyrgð á gerðum sínum, tekið pokann sinn og farið og enginn af stjórnarherrunum sem hafa valdið til að vísa fólki úr starfi hafa gert það. Þetta er náttúrulega að verða skrípaleikur. Stjórnvöld eru rúin trausti. Fólk mótmælir sem aldrei fyrr á ýmsan hátt (og eru Íslendingar þó seinþreyttir til vandræða). Það eru þjóðarfundir, blogg, blaðaskrif, kaffistofuspjall o.s.frv. um þjóðarvandann. En ekkert gerist, ekkert virðist hafa áhrif á stjórnvöld.
Ég spyr: Hvar er lýðræðið? Er ekki komin tími til að hugsa lýðræðið upp á nýtt? Er ekki kominn tími til að hugsa löggjafarþingið og framkvæmdavaldið upp á nýtt? Þetta er ekki að virka í núverandi aðstæðum. Þarf ekki aðskilnað þar á milli og að ráðherrar séu ekki þingmenn? Það væri ráð að skoða hugmyndir Vilmundar heitins Gylfasonar.
Hvenær ætla stjórnvöld að hlusta á ákall fólksins og bregðast við?
Það þarf að hreinsa til og byrja með nýtt borð. Ef stjórnvöld ekki heyra það í dag þegar mótmæli við Alþingishúsið hafa staðið yfir í nær 12 tíma, þá versnar ástandið.
Við erum lítil þjóð í litlu landi. Við megum ekki við því að láta eininguna splundrast. Við þurfum að þjappa okkur saman og stefna að leið sem vinnur okkur í gegnum vandann. Ein af forsendunum til að það geti orðið er að alþingismenn endurnýi umboð sitt. Önnur krafa er að máttlausir embættismenn í seðlabanka og eftirlitskerfi hverfi á braut.
Ég er ekki hlynnt öllum þeim mótmælum sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði. Ofbeldislaus mótmæli styð ég því við þurfum að andmæla ástandinu. En nú ríður á að stjórnvöld spili rétt út svo að mótmælin stigmagnist ekki áfram og endi með ósköpum. Í dag beittu lögreglumenn kylfum á mótmælendur. Við erum friðsöm þjóð, stefnum ekki friðinum í voða!
Við viljum skynsama lausn. Ákall mitt til ríkisstjórnarinnar er að hún víki því hún er rúin trausti. En ég spyr mig, hvaða leið virkar svo að ríkisstjórnin hlusti og taki mark á röddum fólksins.
Ákall mitt er að við sem þjóð stillum saman strengi og tökumst saman á við kreppuna, skref fyrir skref og á uppbyggjandi hátt.
Um bloggið
Bára Friðriksdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.