Afhverju jákvæðni?

Það er ýmsar ástæður fyrir því. Geðorðin 10 geyma þó nokkurn vísdóm. Fyrsta geðorðið hljóðar svo: „Hugsaðu jákvætt það er léttara.“

Það er tilfellið að jákvæðni gerir lífið léttara eins og brosið. En heyrst hefur að við beitum fleiri andlistvöðvum í fýlu en þegar við erum glöð. Fylginautar jákvæðni eru gleði og bjartsýni.

 

Uppáhalds umræðuefni okkar Íslendinga er veðrið. Mig langar að spegla hvernig hægt er að ræða það jákvætt og neikvætt. Það hefur verið óþægilega kalt undanfarið, svo kalt að mér finnst sumarið ekki alveg komið. Með neikvæðu sjónarhorni get ég bent á að þetta sé alveg afleitt, gróðurinn geti skemmst, við getum ekki notið útiveru, stutta sumarið okkar styttist enn við þetta o.s.frv. Ef ég lít jákvætt á málið þá get ég glaðst yfir því að geitungarnir bíða afhroð vegna kuldans. Ef ég vil vera úti þá er bara að klæða sig meira nú eða þá að hreyfa sig kröftulega úti svo að ég haldi á mér hita og hreyfingin gerir líkama og sál gott. Kannski segir þetta veðurfar eitthvað til um að hlýnun jarðar sé ekki á eins hraðri ferð og ætla má. Ef ég bæti við þakklæti þá get ég svo margfaldlega þakkað fyrir síðustu þrjú sumur sem hafa verið óvenju góð fyrir íslenskar aðstæður svo að ég ætti að hafa forða til að geta tekið við lakara sumri nú (ekki það að mig langi til þess, en það er kannski angi af græðginni sem við höfum séð að leiðir ekki til góðs).

 

Ég hef kennt fermingarbörnum í fjölmörg ár. Stundum eru unglingar í hópnum sem eru alltaf jákvæðir, alltaf til í það sem liggur fyrir og þau hvíla einhvernveginn glöð og jákvæð í sjálfum sér. Mér finnst alltaf mannbætandi að vera innan um þessa krakka. Þeir veita mér ósjálfrátt uppörvun og gleði og ég finn  að mig langar til að vera innan um þá. Jákvæðnin hefur eitthvað smitandi gott í för með sér. Það ætti því að vera keppikefli að sækjast eftir henni.

Svo ég vitni aftur í íslensku orðabókina þá var þar líka nefnt að jákvæðni væri það sem horfi til framfara, sé heillavænlegt og árangursríkt. Það breikkar svolítið myndina á jákvæðni, það vísar til þess sem horfir til heilla. Viljum við ekki frekar hugsa um það sem er til heilla en hitt sem er neikvætt og dregur okkur niður? Við höfum valið.

Ef jákvæðu fermingarbörnin hafa svona jákvæð áhirf á umhverfi sitt, hvaða áhrif heldur þú að hin neikvæðu hafi? Í stóra samhenginu þá erum við öll eins og fermingarbörnin. Með viðhorfi okkar til hlutanna höfum við áhrif á umhverfið til jákvæðni eða neikvæðni, til gleði eða angurs. Við þurfum að hugsa um hvorum hópnum við viljum tilheyra?


Jákvæðni

Jákvæðni, hvað er það? Það er von að spurt séá þeim tímum þegar endalaust er dregið fram neikvætt sjónarhorn á hinu og þessu bæði í fjölmiðlum og manna á milli. Reyndar hefur verið full ástæða til neikvæðni síðustu misserin en þá er þörfin fyrir jákvæðni enn meiri. Mig langar til að ræða um jákvæða og önnur gæði  á næstu dögum. Eitthvað sem einblínir ekki inn í neikvæðnina heldur lítur í aðra átt. Bjartari átt. Það er ágæt lýsing á jákvæðni. Hinn jákvæði vill horfa inn til ljóssins en ekki til myrkursins. Hvaða áhrif hefur það? Hver sem beinir sjónum  sínum til ljóssins verður fyrir áhrifum þess. Það birtir upp í sálinni og viðkomandi getur betur tekist á við það sem bíður. Hinn sem rýnir lengi í myrkrið verður fyrir áhrifum þess. Ég botna ekkert í afhverju fréttirnar leita svona á mig! Við Íslendingar vitum hvaða áhrif þessar  stöðugt neiðvæðu fréttir hafa á okkur. Í of miklum mæli þá draga þær okkur niður.

Ég hef því regluega frá hruni brugðið á það ráð að taka mér fréttafrí. Þegar mér finnst fréttirnar ætla að læðast aftan að mér og toga mig niður í áhyggjupott skuldafensins og svartnættisins þá fæ ég mér fréttafrí. Viti menn, ég snarhressist við það. Sumir gætu þetta ekki því þeir eru svo hræddir við að missa af einhverju. Ég hef komist að því að ef það koma einhverjar STÓRAR FRÉTTIR þá heyri ég þær þrátt fyrir fríið mitt. Hitt má jafn dautt liggja því ég er að hlaða batteríin og horfa inn í birtuna. Eða eins og íslenska orðabókin segir um jákvæðni þá er það m.a. að beina athyglinni fremur að verðmætum lífsins en skuggahliðum þess.

Jákvæðnin sér möguleikana í stöðunni en ekki aðeins hindrunina. Jákvæðnin finnur leið framhjá hindruninni og horfir til þess sem er handan þess er hindrar. Jákvæðni er heilmikið skyld voninni.  Á meðan hinn neikvæði sér glasið hálftómt sér hinn jákvæði það hálffullt.  Ég ætla að horfa inn í birtuna.

IMG_0088

Hér ríkir birtan og gleðin.


Kirkjan skilar mannauði

Guðmundur Guðmundsson skrifaði grein í Fréttablaðið 26. maí 2009 sem ég vil svara. Þar hefur hann uppi mörg orð um það að Þjóðkirkjan sé undanþegin fasteignaskatti og lóðagjöldum (er reyndar lóðarréttindi). Hann vísar í lög  um tekjustofna sveitarfélaga nr.  4/1995  en finnst ekki ástæða til þess að nefna að allar kirkjur og bænhús annarra trúfélaga viðurkennd af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fái sama afslátt. Í 5. gr. laganna er líka tiltekið að safnhús sem ekki eru rekin í ágóðaskyni eru undanþegin skattinum. Ekki er minnst á að sendiráð erlendra ríkja hér á landi og hús alþjóðastofnana fá niðurfellingu. Fasteignagjöld samanstanda af fasteignaskatti , lóðaleigu, sorphirðugjaldi, holræsagjaldi og vatnsgjaldi. Ofantaldir aðilar fá niðurfellingu á fyrstu tveim liðunum, af hinum greiðir Þjóðkirkjan sín gjöld. 

 Afsláttur fasteignagjalda 

Auk afslátta af gjöldum til ofangreindra aðila fella sveitastjórnir oft niður fasteignaskatt hjá fleirum. Sjá lög nr.  4/1995 sjá 5. gr. „Sveitarstjórn er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Neðar í greininni er heimild til að veita afslátt eða niðurfellingu til tekjulágra elli og örorkuþega. Víða gefa sveitafélög elli- og örorkuþegar afslátt á fasteignagjaldi. Vonandi halda þeir ívilnun þó að þrengi að því  þessir hópar þurfa sannarlega á fjárstuðningi að halda. Einnig hafa íþróttafélög víða fengið afslátt. Vonandi fær hann að halda sér í kreppunni því þau eins og kirkjan vinna að bættu samfélagi, um það þurfum við að standa vörð. Þjóðkirkjan leggur fram þjónustu við mikið félagsstarf frá vöggu til grafar. Forvarnargildi æskulýðsstarfsins er t.d. mikið.  Það er krökkum að kostnaðarlausu fyrir utan ferðalög. Þar eru m.a. krakkar sem ekki hafa náð að blómstra í öðru félagsstarfi en læra þar að byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd.

 Þjóðkirkjan og aðrir

Guðmundur  talaði um 16 kirkjur í Reykjavík með fasteignamat upp á 6 milljarða. Þær eru reyndar 15 og er fasteignamat þeirra auk safnaðarheimila  5.848.320.000 krónur.  Hann gerir ráð fyrir 100 milljónum í fasteignagjöld. Af B-flokki fasteigna í Reykjavík eru fasteignagjöldin  401.345.542 kr. þar af greiðir kirkjan 324.147.718 kr. Hann sér bara ofsjónum yfir niðurfellingu gjalda hjá Þjóðkirkjunni.

Til að átta sig á þessu í samhengi við annað má nefna að fasteignamat íþróttahússins Fjölnis í Grafarvogi er 1.374.650.000. Það er eitt stakt hús byggt alfarið á kostnað Reykjavíkurborgar. Það hefur rétt á að sækja um fasteignaskattsafslátt og fær góða styrki eins og önnur íþróttafélög frá borginni. Finnst okkur réttlátt að antisportistar agnúist út af því og heimti að notendurnir standi undir öllum kostnaðinum? Íþróttamannvirki, kirkjur, safn- og menningarhús,  allt er þetta samfélagsauður til uppbyggingar og viðhalds góðu mannlífi. Við eigum að styðja við  það.

 Hallgrímskirkja

Guðmundur hafði allt á hornum sér varðandi Hallgrímskirkju og núverandi viðhaldskostnað sem hann taldi allan úr vasa skattborgara. Þegar ákveðið var að byggja Hallgrímskirkju var það alfarið ákvörðun Alþingis að byggja svona stóra kirkju  enda ekki á færi safnaðarins að standa undir henni.  Núverandi viðhald skiptis jafnt á milli ríkis, borgar og Hallgrímskirkju það ég best veit. Hallgrímskirkja er fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi, þar fara um 300.000 ferðamenná ári. Á veraldarvefnum flokkast hún sem ein af 10 einstæðustu kirkjum í heiminum þó að Guðmundur sjái ekkert fallegt við hana (http://churchvaluation.com//10%20Most%20Unique%20Churches.pdf).

 Viðhald kirkna

Kostnaður við byggingu og viðhald kirkna leggst að langmestu leyti  á viðkomandi sókn. Það eru félagsgjöld þjóðkirkjufólksins sem borga. Auk þess getur sóknin sótt um styrk í jöfnunarsjóð kirkna en sá styrkur er hlutfallslega lítill, enda eru margar kirkjur í stórum vanda með að sinna nauðsynlegu viðhaldi. Það er ekki spennandi að skera niður gróskumikla starfsemi svo að steinninn haldi sér.  Þess vegna skiptir félagsgjald skráðra þjóðkirkjumeðlima miklu máli. Ríkið innheimtir gjaldið, 855 krónur á mánuði af 16 ára og eldri og skilar kirkjunni.  Af þessari innkomu þarf hver kirkja að standa straum af öllum sínum kostnaði.

 Guð ber hag okkar fyrir brjósti

Félagsauður er mikill í kirkjunni auk menningarlegs- og trúarlegs auðs. Dýrmætasti auður kirkjunnar felst í von trúarinnar. Við eigum aðgang að höfundi sköpunarverksins í gegnum Jesú Krist. Þar er elskandi hugur sem skilur okkur og heyrir. Þar er máttugur Guð sem vill leiða þjóðina í gegnum aðsteðjandi erfiðleika. Það veitir mér styrkur og hjálp að biðja fyrir þjóð og ráðamönnum í þessum þrengingum. Trúin í kristinni kirkju veitir mikla huggun, uppörvun, aðhald og von. Þeim hefur fjölgað s. l. vetur sem hafa leitað til kirkjunnar. Guð gefi að siðferði Krists fái að byggja upp sterkari þjóð.

 

17. júní 2009

Bára Friðriksdóttir, sóknarprestur


Beauvoir, Sartre og mótmælin

Mikið var myndin um Beauvoir og Sartre ljómandi góð. Það kom mér á óvart að hún yrði sögð út frá sjónarhorni Simone de Beauvoir. Hún óx í mínum augum við þá skoðun en Sartre minnkaði, þrátt fyrir hans fína exístensíalisma og leikritið, Helvíti eru hinir og allt annað krefjandi og gefandi sem hann skrifaði.

Beauvoir hefur aldrei fengið að njóta sannmælis vegna frægðar hans. Einhverntíman las ég fyrstu 223 síðurnar í ævisögu hennar e. Margaret Crosland, sem kom út 1992. Þá var ég bara hálfnuð og komst aldrei í að klára hana. Kannski þetta verði tilefni til þess.

Að alvörunni,

ætli ég verði ekki að taka mér smá frí í vinnunni á morgun til að geta staðið mótmælastöðu við Seðlabankann. Þjóðin og umheimurinn þurfa að fá endurheimt traust á Seðlabankanum. Lifi friðsamleg en kröftug mótmæli.


Tímamót í umrótinu

Mikið er það sorglegt að bæði Ingibjörg Sólrún og Geir Hilmar Haarde séu alvarlega veik.

Mikið er ég þakklát Björgvini að hann tók fyrstur af skarið og hugsaði vonandi um þjóðarhag umfram eigin hag og flokksins. Að játa loksins stöðuna og segja af sér og reka fjármálaeftirlitið er fyrsta skrefið í áttina að höggva á hnútinn og standa upp úr stól sínum.

Ég vona að alþingismennirnir beri gæfu til að hugsa um þjóðarhag umfram eigin hag og flokksins í komandi kosningarbaráttu.

Friðrik Erlingsson komst vel að orði í Silfri Egils í dag með því að vitna í Þorgeir Ljósvetningagoða og segja að þingmenn hefðu slitið í sundur friðinn. Það er nokkuð til í því.

Allavegana skulum við vona að atburðir dagsins viti á gott. Það hefur verið samkirkjuleg bænavakt alla vikuna. Má segja að því bænamaraþoni hafi lokið í hádeginu í dag með sunnudagsguðsþjónustunni.

Guð láti gott á vita.

 


Við þurfum nýtt lýðræði

Eitthvað er ég löt að blogga. Fæ útrás annars staðar. Ástandið í landinu er þó farið að setjast þungt í mig. Stjórnvöld sitja sem fastast. Enginn hefur tekið ábyrgð á gerðum sínum, tekið pokann sinn og farið og enginn af stjórnarherrunum sem hafa valdið til að vísa fólki úr starfi hafa gert það. Þetta er náttúrulega að verða skrípaleikur. Stjórnvöld eru rúin trausti. Fólk mótmælir sem aldrei fyrr á ýmsan hátt (og eru Íslendingar þó seinþreyttir til vandræða). Það eru þjóðarfundir, blogg, blaðaskrif, kaffistofuspjall o.s.frv. um þjóðarvandann. En ekkert gerist, ekkert virðist hafa áhrif á stjórnvöld.

Ég spyr: Hvar er lýðræðið? Er ekki komin tími til að hugsa lýðræðið upp á nýtt? Er ekki kominn tími til að hugsa löggjafarþingið og framkvæmdavaldið upp á nýtt? Þetta er ekki að virka í núverandi aðstæðum.  Þarf ekki aðskilnað þar á milli og að ráðherrar séu ekki þingmenn? Það væri ráð að skoða hugmyndir Vilmundar heitins Gylfasonar.

Hvenær ætla stjórnvöld að hlusta á ákall fólksins og bregðast við?

Það þarf að hreinsa til og byrja með nýtt borð. Ef stjórnvöld ekki heyra það í dag þegar mótmæli við Alþingishúsið hafa staðið yfir í nær 12 tíma, þá versnar ástandið.

Við erum lítil þjóð í litlu landi. Við megum ekki við því að láta eininguna splundrast. Við þurfum að þjappa okkur saman og stefna að leið sem vinnur okkur í gegnum vandann. Ein af forsendunum til að það geti orðið er að alþingismenn endurnýi umboð sitt. Önnur krafa er að máttlausir embættismenn í seðlabanka og eftirlitskerfi hverfi á braut.

Ég er ekki hlynnt öllum þeim mótmælum sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði. Ofbeldislaus mótmæli styð ég því við þurfum að andmæla ástandinu. En nú ríður á að stjórnvöld spili rétt út svo að mótmælin stigmagnist ekki áfram og endi með ósköpum. Í dag beittu lögreglumenn kylfum á mótmælendur. Við erum friðsöm þjóð, stefnum ekki friðinum í voða!

Við viljum skynsama lausn. Ákall mitt til ríkisstjórnarinnar er að hún víki því hún er rúin trausti. En ég spyr mig, hvaða leið virkar svo að ríkisstjórnin hlusti og taki mark á röddum fólksins.

Ákall mitt er að við sem þjóð stillum saman strengi og tökumst saman á við kreppuna, skref fyrir skref og á uppbyggjandi hátt.


Vonin styrkir veikan þrótt...

Æ, já. Það er víst skollin á kreppa. Hvern hefði órað fyrir því að svona gæti farið fyrir íslenskri þjóð á 21. öldinni? En þetta er staðan og almenningur situr eftir með sárt ennið. Vissulega tókum við öll þátt í stífu lífsgæðakapphlaupi og því miður hafa margir lifað um efni fram í langan tíma. Það kann aldrei góðri lukku að stýra. 

Fyrst varð þjóðin fyrir miklu sjokki, doða og afneitun. Þetta eru fyrstu áfallseinkennin. Núna er reiðin að brjótast fram sem er einn liður sorgarferlisins sem þjóðin er í.

Á næstu vikum og mánuðum eigum við eftir að sjá afleiðingarnar koma skýrt fram. Þá vex reiðin enn meira fram. Við þurfum að vinna úr þessu sem þjóð og sem einstaklingar. Við þurfum einnig að vinna úr þessu með rannsókn á því sem gerðist svo að við þurfum aldrei að lenda í þeim sporum aftur sem við erum í í dag.

Reiði mín og sárindin sem eru að brjótast fram þessa dagana snúa aðallega að stjórnvöldum sem áttu að setja skýrari leikreglur svo að ekki væri hægt að valsa með frelsið án samhengis við ábyrgð. Ég hef oft sagt að frelsi án ábyrgðar sé helsi. Það birtist skýrt núna. Hvernig gat það gerst að s´tjórnvöld hafi ekki gripið fastar i taumana fyrr á þessu ári þegar þeir voru komnir með upplýsingar um í hvað stefndi. Hinn hluti reiðinnar snýr að útrásargosunum sem geystust óábyrgt áfram. Ég finn reyndar líka til með fjölskyldum þeirra sem nú upplifa andúð og jafnvel aðkast.

Við getum haft áhrif í stjórnmálunum og krafist kosninga í vor. Við höfum ekkert vald til að kúska útrásarpeyjana til. Það eina sem við getum gert gagnvart þeim er að biðla til þeirra að þeir komi með peninga sína frá útlöndum og hjálpi til við uppbyggingu íslensks samfélags. Satt að segja finnst mér við eiga það inni hjá þeim. Þeir myndu sýna manndóm og ábyrgð með því.

Sjálfsmynd þjóðarinnar er hrunin jafnt í útlöndum sem í okkar huga. Hrun veruleikans er líka eitt af því sem gerist við mikið áfall. Eftir það þarf að glíma við allar þungu og erfiðu tilfinningarnar sem brjótast fram og smám saman að byggja upp aðra sjálfsmynd, eða rétta sagt nýja mynd af heiminum sem við viljum lifa í.

Á næstu mánuðum og árum fer sú vinna fram. Ég vona að við hvert og eitt og sem þjóð drögum lærdóm af þessum ósköpum og vinnum að því að svona geti aldrei gerst aftur.

Í þessari vinnu er nauðsynlegt að halda í vonina og horfa til bjartari tíma sem birtast síðar. Þessi húsgangur brýnir:

Vonin styrkir veikan þrótt,

vonin doða hrindir.

Vonin hverja vökunótt

vonarljósið kyndir.


Ég krefst nálgunarbanns

Einhvernveginn hef ég ekki haft neina þörf til að skrifa fyrir almannasjónir síðustu mánuði. Nenni ekki að opinbera hugsanir mínar fyrir alþjóð endalaust. En í vikunni birtist frétt sem ekki er hægt að þegja undir.

Maður sem hafði beitt fyrrum sambýliskonu sína ofbeldi til margra ára, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt, fékk ekki framlengt nálgunarbann þrátt fyrir að lögreglan færi fram á það. Þriggja manna dómur skiptist reyndar í tvennt, einn vildi nálgunarbann og færði rök fyrir því að skerðing mannsins væri lítil. Mátti einungis vera í 50 metra fjarlægð frá konunni en gat gert annað sem hann lysti innan ramma laganna. Hinum dómurunum tveim fannst ekki lengur vera forsenda fyrir  nálgunarbanni.

Ég verð að segja að hér er skilningur dómaranna á aðstæðum fórnarlambsins sorglega lítill. Þeir sjá ekki forsendu lengur til að íþyngja manninum, en gera sér ekki grein fyrir hve hræðilega þeir eru að íþyngja konunni og ekki bara henni heldur öllum fórnarlömbum ofbeldismanna því nálgunarbannið hefur verið eina hálmstrá þeirra til að slíta sig frá ofbeldismanninum.

Slegin, er lýsing á því hvaða áhrif þetta hefur á mig. Búum við virkilega í samfélagi þar sem dómskerfið hefur engan skilning á aðstæðum þess sem er beittur lúmsku óréttlæti í ofbeldi. Það hefur verið ljóst í dómum kynferðisbrota og sifjaspells. Sem betur fer hafa þeir dómar verið að þyngjast hægt og bítandi síðasta áratuginn en þegar horft er til alvarleikans, hvaða áhrif þessir glæpir hafa á fórnarlömbin þá er algjört misræmi í þyngd þeirra dóma miðað við t.d. fíkniefnadóma.

Mig langar að draga upp mynd af áhrifum ofbeldisins á fórnarlambið jafnvel þótt ofbeldismaðurinn sé farinn úr nánasta umhverfi. Hótunin um ofbeldi hefur mjög lúmsk og erfið sálræn áhrif. Vitneskjan um að nærri þér sé aðili sem hefur í hyggju að meiða þig eða pína gerir það að verkum að þú býrð við ótta sem stjórnar atferli þínu. Það heftir þig svo að þú ferð ekki á ákveðna staði, jafnvel þó þú þurfir að koma þangað. Þú hagar lífi þínu þannig að þú getir forðast átök og áður en þú veist af ert þú orðin/n fangi óttans við hegningu ofbeldismannsins. Stundum slagar hegning hótunarinnar hátt upp í sársaukann sem felst í ofbeldinu sjálfu. Því ofbeldismaðurinn er flinkur við að hóta og gera þér ljóst að þú komist aldrei frá vökulu auga hans og að hann muni sko lúskra á þér ef þú gerir ekki akkúrat eins og hann segir. Hann lætur þig vita að hann geti alveg drepið þig. Þá dugir ekki flótti til útlanda, hann ætlar að elta þig þangað. Og þó það myndi ekki gerast í raunveruleikanum, (gæti reyndar allt eins gerst) þá heldur óttatak hans þannig um þig að þú veist að hann getur alltaf leitað þig uppi og misboðið þér algjörlega til anda, sálar og líkama.

Konurnar sem koma í Kvennaathvarfið búa inn í þessu óttataki sem ofbeldismaðurinn hefur á þeim. Þær eru helteknar af ótta og allar ákvarðanir þeirra miðast út frá: „Hvernig skyldi hann bregðast við þessu?“ Þær trúa því ekki að þær séu hultar fyrir ofbeldismanninum í athvarfinu. Ein er sú von sem hægt hefur verið að vekja með þeim. ÞÚ GETUR FENGIÐ NÁLGUNARBANN !! Með því má hann ekki koma inn fyrir ákveðinn radíus í þínu lífi. Þar getur þú fundið öryggi.

Þolandinn er ekki laus við ofbeldismanninn úr huga eigin fangelsis, líklega ekki frá sms, símhringingum eða tölvuskeytum. EN HANN MÁ EKKI KOMA INN FYRIR ÞENNAN HRING. ÞAR ER FRELSI ÞOLANDANS, ÞAR ER VON HANS.

Með dómnum var öll von tekin frá þessari konu. Hver er frelsissvipting hennar? Margfalt meiri en frelsissvipting gerandans. Eftir margra ára barsmíðar og kynferðislegt ofbeldi þar sem hún var líka þvinguð til að vera með öðrum mönnum á hún bara að gera ráð fyrir því að hún fái frið fyrir honum si svona. Hún hefur engin úrræði sjálf, engin nema að fá nálgunarbann þannig að hún geti upplifað grundvallar öryggiskennd. Dómararnir skylja það ekki, það veldur mér verulegum áhyggjum.

Konan er svipt voninni sem hún hafði um stuðning samfélagsins til að hún gæti búið við öryggiskennd. Hún hefur skilning lögreglunnar í þessu máli en  dómararnir tveir hafa svipt hana frelsinu því hvað er einstaklingur án öryggiskenndar um sína grunn velferð?

Eins og Sigþrúður forstöðukona Kvennaathvarfsins sagði að þá er það fólk sem vinnur að stuðningi þessara kvenna hissa og finna til vonleysis. Það er þörf að hlusta eftir rödd starfsfólksins, þolandans og lögreglunnar.

Hér dugir aðeins eitt: Vér mótmælum allir. Þetta má aldrei gerast aftur. 


Hallgrímur Pétursson

Á föstunni er svo gott að hugleiða Hallgrím Pétutrsson. Eftir því sem ég les sálma hans oftar verð ég hugfangnari af þeim. Flest er svo undurvel samið og svo er innihaldið svo mikið og ríkt.

 

Langar að deila með ykkur einu versi úr 37. sálmi. Annað orð Kristí á krossinum.

 

Ég lít beint á þig, Jesú minn,

jafnan þá hryggðin særir.

Í mínum krossi krossinn þinn

kröftuglega mig nærir.

Sérhvert einasta sárið þitt

sannlega græðir hjartað mitt

og nýjan fögnuð færir.

 

Hann dregur svo snilldarlega upp líkingar sem þó eru sára einfaldar en þeim mun áhrifameiri. Eins og þarna talar hann um krossinn sem við berum og lætur kross Jesú yfirskyggja okkar kross. Þegar við hugsum um krossinn sem hann bar fyrir okkur veitir það ríkulega næringu. Eins leggjastt sárin hans yfir hjartasárin okkar og græða þau.

Álíka speglun er Hallgrímur með aftur og aftur í Passíusálmunum sem veita blessun, fögnuð og nýja orku.

Merkilegt hvað það er gott og uppörvandi að lesa texta sem uppörvar og blessar. Þó að Passíusálmarnir fjalli um píslargöngu Krists þá eru þeir yfirfullir af því hvernig sú mikla kvöl varð mannkyni til blessunar. Það huggar nærir og styrkir.  


Til hamingju láglaunastéttir!

Mikið er ég glöð með kjarasamninga fyrir þau lægst launuðu. Hækkun persónuafsláttar er það besta sem hlutfallslega gat gerst hjá láglaunastéttunum. Til hamingju með það.

Ég hef verið að bíða eftir þessu í mörg ár. Einnig þarf að sækja fram fyrir umönnunarstéttirnar og kennara á næstunni. Aðrir mega alveg bíða ef þessar stéttir fá hækkun.

Einnig er gott að sjá að barnabætur hækka, það kemur sér vel fyrir barnafjölskyldur og getur farið að muna um það ef þær eru hærri en í dag.

Það er gott að sjá að ríkisstjórnin vill leggja sinn skerf til þess að bæta aðstæður þeirra lægst settu. Wink


Næsta síða »

Um bloggið

Bára Friðriksdóttir

Höfundur

Bára Friðriksdóttir
Bára Friðriksdóttir
Bára er sóknarprestur í Hafnarfirði og Vogum. Hún er eiginkona og tveggja barna móðir.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_0088
  • 2010elin bjort gudm gefa ondum800x500

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband